Norræna ráðherranefndin er mikilvægur vettvangur fyrir norrænt samstarf á sviði menningarmála. Starfsemi nefndarinnar á sviði menningarmála er samtvinnuð öðru formlegu og óformlegu norrænu samstarfi, bæði innan og utan Norðurlanda. Í alþjóðlegu samhengi eiga Norðurlönd áfram að vera í fararbroddi sem skapandi og opið lista- og menningarsvæði.
Norrænt menningarsamstarf á að standa vörð um arfleifð landanna á sviði sögu, menningar og tungumála og tryggja þannig samfellu. Jafnframt á samstarfið að vera opið fyrir nýjum tjáningarformum og straumum. Breytt skilyrði menningarlífs og listar, breytt íbúasamsetning og ný tækni kalla á sveigjanleika og endurnýjun. Mikilvægt er að stefna í menningarmálum taki mið af stöðu mála í samtímanum, rannsóknum og þekkingu.
Norrænt menningarsamstarf byggist á reglunni um norrænt notagildi, þ.e. að samstarfið nái til sviða þar sem norrænu löndin hafa sameiginlegra hagsmuna að gæta og glíma við svipuð vandamál. Með miðlun reynslu og þekkingar ásamt uppbyggingu tengslaneta má ýta undirskilvirkni og þróun.
Menningarsamstarf á að efla sjálfbæra þróun. Það felur í sér sameiginlega viðleitni til að auka aðgengi og jafnræði á sviði menningar og lista sem takast á við hefðir og gildismat og eflir lífsfyllingu og samkennd fólks. Með menningarsamstarfi á breiðum grundvelli má þróa samkennd og skilning milli íbúa Norðurlanda og efla þannig samheldni.
Mikil eftirspurn er eftir norræna líkaninu og norrænni list og menningu í heiminum. Norrænt menningarsamstarf á að miðla gildum á borð við lýðræði, málfrelsi og mikilvægi samtaka almennings bæði á alþjóðlegum og svæðisbundnum vettvangi.