Lifandi bókasafn starfar nákvæmlega eins og venjulegt bókasafn - lesendur koma og fá "lánaða" bók í takmarkaðan tíma. Það er aðeins einn munur á: bækurnar í Lifandi bókasafni eru fólk og bækurnar og lesendurnir eiga persónuleg samskipti. Bækurnar í Lifandi bókasafni eru fulltrúar hópa sem oft mæta fordómum og eru flokkaðir í sérstaka hópa, oft fórnarlömb misréttis og félagslegrar útilokunar. Í Lifandi bókasafni geta bækurnar ekki aðeins talað, heldur einnig svarað spurningum lesandans og þar að auki geta bækurnar jafnvel spurt spurninga og sjálfar fræðst. Árið 2003 varð Lifandi bókasafn hluti af verkefni Evrópuráðsins "Youth promoting human rights and social cohesion". Hugmyndafræði þessa verkefnis er að mannréttindi verði ekki vernduð með lagabókstafnum einum saman. Allir verða að vinna að þeim og vernda þau. Til þess að hvetja borgarana til þess að hugsa um eigin mannréttindi og annarra, verður að skapa vitund meðal almennings um mikilvægi mannréttinda. Hugmyndin að "Lifandi bókasafni" varð til að frumkvæði ungs fólks á Norðurlöndum og varð fyrst að veruleika árið 2000 á Hróarskelduhátíðinni í Danmörku. Evrópuráðið og Norræna ráðherranefndin standa því saman að útgáfu handbókar í skipulagningu Lifandi bókasafna.