Norræn samstarfsáætlun á löggjafarsviði
Norrænt samstarf Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands hófst formlega með stofnun Norðurlandaráðs 1952.
Tíu árum síðar árið 1962 undirrituðu löndin Helsingforssamninginn sem norrænt samstarf grundvallast á. Norræna ráðherranefndin (NMR) var stofnuð 1971 en hlutverk hennar er að halda utan um samstarf norrænu ríkisstjórnanna og yfirvalda á Álandseyjum, í Færeyjum og á Grænlandi. Helsingforssamningurinn var síðast endurskoðaður árið 1995.
Löggjafarsamstarfið er tæki í starfi sem miðar að því að skapa sameiginlegar grundvallarreglur í löggjöf Norðurlandanna í samhljómi við almenn norræn gildi. Samstarfið er einnig tæki í evrópsku löggjafarsamstarfi og við innleiðingu ESB/EES-gerða og annarra alþjóðlegra skuldbindinga.