Þann 27. október 2015 ákvað Norræna ráðherranefndin um atvinnu-, orku- og byggðastefnu (MR-NER) að vinna stefnumótandi úttekt á norrænu samstarfi á sviði orkumála og hvernig það gæti þróast næstu 5-10 árin. Þessi stefnumótandi úttekt er hluti af endurbótaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar sem framkvæmdastjóri hennar, Dagfinn Høybråten, hrinti úr vör. Stefnumótandi úttektir hafa áður verið gerðar á samstarfi á sviðum utanríkis-, öryggis-, heilbrigðis- og vinnumála. Verkefnið var í því fólgið að leggja fram 10-15 beinskeyttar tillögur um hvernig styrkja mætti orkumálasamstarfið enn frekar, á sviðum þar sem marktæk og jákvæð skref hafa verið stigin á síðustu tveimur áratugum.
Loftslagsráðstefnan í París í desember 2015 og markmið ESB um að vinna að stofnun Orkusambands Evrópu hafa gert úttektina tímabærari. Hún grundvallast enn fremur á endurskoðun norrænu landanna á stefnu hvers og eins þeirra í loftslags- og orkumálum. Landfræðipólitískt landslag er um þessar mundir á mikilli hreyfingu – alþjóðaviðskipti og tefna í loftslagsmálum eru undir þrýstingi og þjóðernishyggju vex fiskur um hrygg í mörgum löndum. Þetta skapar margháttaðar áskoranir er varða norrænt orkumálasamstarf, en samstarf yfir landamæri hefur reynst afar árangursríkt. Ýmsar rannsóknir hafa enn fremur leitt í ljós að velferð á Norðurlöndum hefur aukist stórkostlega. Tímabært er orðið að meta hvernig löndin geta nýtt sér þennan árangur, þrátt fyrir óhagstæða þróun í alþjóðamálum. Þessari úttekt er ætlað að greina þessar áskoranir, leggja fram tillögur um það hvernig Norðurlönd geta sótt fram og jafnframt að hvetja til frekari umfjöllunar og umræðu.