Í skýrslu þessari er fjallað um áskoranir og tækifæri í löggjafarsamstarfi Norðurlanda en það er mikilvægur þáttur í samstarfi norrænu landanna samkvæmt samstarfssamningi þeirra (Helsingforssamningnum). Hér eru gerðar ýmsar tillögur að því hvernig unnt er að efla löggjafarsamstarfið.
Færð eru rök fyrir því að eflt norrænt löggjafarsamstarf leiði til lagabóta í löndunum, sporni gegn og komi í veg fyrir stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum og veki athygli á norræna módelinu um allan heim. Öflugra löggjafarsamstarf hefur mikið að segja um hvort það stefnumið náist að Norðurlönd verði best samþætta svæði heims í samræmi við sameiginlega yfirlýsingu norrænu forsætisráðherranna frá árinu 2016.
Inge Lorange Backer, höfundur skýrslunnar, er prófessor emeritus við Óslóarháskóla og hefur mikla reynslu af norrænu samstarfi á sviði laga og réttar. Hann var fulltrúi Noregs í norrænu embættismannanefndinni um löggjafarsamstarf þegar hann var skrifstofustjóri á lagaskrifstofu dómsmálaráðuneytisins í Noregi (1995–2008).