Framkvæmdaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um framtíðarsýn okkar 2030 tók við af ritinu Gott líf á sjálfbærum Norðurlöndum - Norræn áætlun um sjálfbæra þróun 2013–2025 þann 1. janúar 2021. Framvegis er Framtíðarsýn okkar 2030 hinn norræni samstarfsrammi um starf Norrænu ráðherranefndarinnar að sjálfbærri þróun.
Gott líf á sjálfbærum Norðurlöndum - Norræn áætlun um sjálfbæra þróun 2013–2025 segir frá þverfaglegum megináherslum í starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar. Sjálfbærnisjónarmið eiga að setja mark sitt á allt starf sem unnið er innan vébanda ráðherranefndarinnar.
Norræna ráðherranefndin á að stuðla að því að Norðurlöndin geti áfram þróað samfélögin í átt til frekari velferðar og lífsgæða í þágu núlifandi og komandi kynslóða með því að vernda og nýta getu jarðar til að standa undir lífi í allri þess fjölbreytni.
Í áætluninni koma fram verklagsreglur sem gilda allt til ársins 2025 á eftirfarandi áherslusviðum: Norrænt velferðarkerfi, lífvænleg vistkerfi, breytt loftslag, sjálfbær nýting auðlinda jarðar ásamt menntun, rannsóknum og nýsköpun. Fagsvið ráðherranefndarinnar hrinda áætluninni í framkvæmd með því að ráðast í raunhæf verkefni á grundvelli hennar.