Norrænt samstarf Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands hófst formlega með stofnun Norðurlandaráðs árið 1952. Tíu árum síðar, árið 1962, undirrituðu löndin Helsingforssamninginn sem er grundvallarskjal í norrænu samstarfi. Norræna ráðherranefndin var stofnuð árið 1971 en hlutverk hennar er að halda utan um samstarf norrænu ríkisstjórnanna og yfirvalda á Álandseyjum, í Færeyjum og á Grænlandi. Samstarfið á sviði dómsmála er í höndum dómsmálaráðherra Norðurlanda. Það byggist á meginreglunum í Helsingforssamningnum, almennum reglum um norrænt samstarf og þeirri samstarfsáætlun sem hér birtist. Stefnumarkandi áherslusviðum í samstarfi norrænu dómsmálaráðherranna árin 2019–2022 er ætlað að tryggja réttaröryggi, einsleitni á réttarsviði Norðurlanda og norrænt notagildi. Samstarfið snýst einnig að verulegu leyti um forvarnir gegn glæpum og hryðjuverkum sem eru ósjaldan þess eðlis að snerta fleiri lönd en eitt.