Um heim allan krefst ungt fólk aðgerða til að vernda plánetuna okkar. Árið 2020 verður nýr alþjóðlegur samningur fyrir náttúru og fólk samþykktur, en þar verða sett markmið um verndun og varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika og vistkerfa jarðar. Það er afar mikilvægt að raddir ungs fólks heyrist þegar þessi nýju markmið eru sett, þar sem þetta hefur ekki aðeins áhrif á núlifandi kynslóðir, heldur einnig komandi kynslóðir og lífsviðurværi þeirra.
Við Norðurlandabúar viljum tryggja að raddir unga fólksins heyrist og því höfum við þróað þetta verkfærasett til að gera ungu fólki kleift að taka þátt í að setja ný markmið um verndun og sjálfbæra notkun líffræðilegrar fjölbreytni og vistkerfa og þar með tryggja nýjan alþjóðlegan samning fyrir náttúru og fólk! Verkfærasettið stendur ungu fólki til boða og þeim sem vilja hvetja ungt fólk til að þróa nýjan alþjóðlegan samning fyrir náttúru og fólk. Öllum sem vilja skipuleggja, greiða fyrir og taka þátt í slíku samráði við ungt fólk er frjálst að nota verkfærasettið. Hægt er að koma niðurstöðunum á framfæri við handhafa ákvörðunarvalds, almenning og viðeigandi stofnanir sem hluta af fjöldahreyfingu ungmenna um allan heim.
Markmiðið er að aðstoða ungt fólk, ungmennasamtök og aðra hópa við að efna til samtala um lykilatriði nýja samningsins fyrir náttúru og fólk og að tryggja traustar niðurstöður úr vinnusmiðjum ungs fólks.
Verkfærasettið var þróað í náinni samvinnu við Norðurlandaráð, Norrænu ráðherranefndina og ungt fólk á Norðurlöndum.
Auk verkfærasettsins stendur til boða handbók um skipulagningu vinnusmiðja og samráðs. Handbókinni er ætlað að veita skipuleggjendum vinnusmiðja og samráðs upplýsingar og leiðbeina þeim við undirbúning vinnusmiðjanna. Þetta er sveigjanleg og valfrjáls handbók sem hægt er að nota í ýmsum aðstæðum.