Framtíðarsýn okkar 2030 hefur það höfuðmarkmið að gera Norðurlönd að sjálfbærasta og best samþætta svæði heims fyrir árið 2030. Markið er sett hátt og þess vegna er mikilvægt að fylgjast náið með framvindunni til að alltaf liggi ljóst fyrir hversu vel okkur miðar.
Norræna ráðherranefndin leitaði þess vegna til Rambøll Management Consulting og bað fyrirtækið að vinna skýrslu um stöðu mála við upphaf vinnunnar við Framtíðarsýn okkar 2030, svokallaða grunnmælingu. Tilgangurinn er að áætla stöðu Norðurlanda í heild við upphaf þess verks að gera framtíðarsýnina að veruleika.
Grunnmæling vegna Framtíðarsýnar okkar 2030 ber almennt vott um að Norðurlönd byggja á traustum grunni og eru að flestu leyti á góðri leið í átt að því markmiði að verða sjálfbærasta og best samþætta svæði heims. Hún sýnir þó einnig að mörg vandamál eru enn óleyst og að margt má betur fara í þessari vinnu og á það sérstaklega við að því er varðar græn Norðurlönd.