Í apríl á þessu ári fundar norræni hnattvæðingarvettvangurinn í fyrsta sinn í sænska bænum Riksgränsen undir yfirskriftinni Samkeppnishæf Norðurlönd í hnattvæddum heimi.Aðgerðir þessar munu njóta mikils forgangs í norrænu samstarfi á komandi árum. Því má segja að norrænu ríkin hafi tekið stórt skref út í heim sem er hröðum breytingum undirorpinn. Þjóðfélögin í grannríkjum Norðurlandanna þróast hratt þar sem unnið er mikið endurbótastarf, Evrópusambandið vex og stórþjóðirnar Kínverjar og Indverjar eru mættar til leiks á alþjóðavettvangi sem mikilvægir samskiptaaðilar okkar. Allt þetta gefur Norðurlandaþjóðunum enn frekar færi á að nýta sameiginlegan styrk sinn bæði á vettvangi Evrópusamstarfs, Sameinuðu þjóðanna og hjá öðrum alþjóðlegum stofnunum. Því er mikilvægt að við störfum markvisst og leggjum áfram áherslu á þau svið þar sem samstarf okkar nýtist best. Og sú er reyndar raunin í samstarfi norrænna þingmanna og ríkisstjórna.En hvaða áhrif skyldi þetta hafa á almenning og atvinnulíf á Norðurlöndum? Hvernig gagnast norrænt samstarf þeim fjölskyldum sem flytja búferlum á milli Norðurlandanna og vilja varðveita rétt sinn á fæðingarorlofsgreiðslum? Hvernig kemur það námsfólki í Hvíta-Rússlandi til góða, sem verður fyrir því að háskólanum þeirra er lokað svo unga fólkið neyðist til að halda áfram námi sínu í útlegð frá heimalandinu? Og hvaða afleiðingar hefur það fyrir skattarefi sem fela fjársjóði sína í skattaparadísum eins og Mön í Írlandshafi? Þetta eru aðeins nokkur dæmi um allar þær hugmyndir, verkefni, sögur, pappíra, fundi, aðgerðir og næturvinnutíma í norrænu samstarfi á liðnu ári sem við viljum greina frá.