Í árslok 2002 ákváðu samstarfsráðherrar Norðurlanda að skipa norrænan vinnuhóp sem skyldi skila greinargerð um Vestur-Norðurlönd í norrænu samstarfi um mitt ár 2003 – með það fyrir augum að auka pólitískt vægi núverandi og væntanlegs norræns samstarfs á Vestur-Norðurlöndum og norræns samstarfs við granna Vestur-Norðurlanda. Vinnuhópurinn fékk Norrænu samstarfsráðherranefndinni í hendur Vestur-Norðurlönd í norrænu samstarfi – greinargerð í maí 2003.Með greinargerðinni var lögð fram skýrsla, Vestur-Norðurlönd og grannar þeirra, en hún felur í sér lýsingu á samtals 16 löndum og svæðum umhverfis Vestur-Norðurlönd. Lýsingin er unnin af Nordregio að beiðni vinnuhópsins.Norræna ráðherranefndin hefur áður mótað ýmsar »grannsvæðastefnur«, til að mynda stefnu í samstarfi við Eystrasaltslöndin og stefnu í norðurskautssamstarfi. Norræn stefna í samstarfi við Vestur-Norðurlönd snertir jafnframt ESB-samstarfið gegnum »Norræna vídd« ESB, svæði sem nær allt til Grænlands í vestri. Á þetta er lögð áhersla með svonefndum »Norðurskautsglugga« innan Norrænnar víddar, sem boðar aðild ESB að málefnum norðurskautsins. Norðurlönd eru líka í nábýli við Norður-Ameríku – meðal annars austurhéruð Kanada. Önnur grannsvæði Vestur-Norðurlanda eru til að mynda Norður-Írland og Írland ásamt norðurhluta Bretlandseyja.Norræna samstarfsráðherranefndin hefur í meginatriðum fallist á tilmæli vinnuhópsins og beðið viðkomandi fagráðherranefndir að taka afstöðu til framkominna tillagna fyrir 1. desember 2003. Einnig hefur Norðurlandaráð fengið greinargerðina og atriðaskýrsluna til umfjöllunar.