Í Grósku - lífskrafti, formennskuáætlun Íslands er lögð áhersla á að nýta og efla tækifærin sem búa í auðlindum Norðurlanda, umhverfi, þekkingu og mannauði. Á formennskuárinu verða þrjú verkefni í brennidepli: Norræna lífhagkerfið, Norræni spilunarlistinn og Norræna velferðarvaktin. Íslendingar leggja áherslu á að auka sjálfbærni á öllum sviðum samfélagsins. Leitast verður við að efla umhverfisvitund og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum, styðja við og efla þróun umhverfisvænna framleiðsluhátta og nýsköpun á breiðum vettvangi. Einnig verður stuðlað að aukinni sjálfbærni norrænu velferðarkerfanna og þau verði í stakk búin til þess að tryggja velferð borgaranna til langframa. Auk þess er sérstök áhersla lögð á mikilvægi skapandi greina og menningar og verður stafræn tækni notuð til þess að koma norrænni menningu á framfæri í auknum mæli.