Norræn starfsmannaskipti er styrkjaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar sem gerir ríkisstarfsmönnum kleift að starfa í lengri eða skemmri tíma hjá opinberum stofnunum í norrænu grannlöndunum og kynnast aðstæðum þar.
Tvær mikilvægar forsendur eru að umsækjandi njóti venjulegra mánaðarlauna sinna á meðan á skiptidvöl stendur og að hann sæki sjálfur um skiptidvöl á vinnustað í norrænu grannlandi eða löndum. Tímabilið sem styrkur er veittur til getur verið allt frá 14 dögum til sex mánaða.
Norræna ráðherranefndin veitir dvalarstyrki sem nema 11.000 dönskum krónum á mánuði. Ráðherranefndin greiðir ennfremur ferðakostnað til og frá dvalarstað. Löndin fara með úthlutun styrkjanna og umsækjendum er því bent á að hafa samband við tengiliði áætlunarinnar í heimalandinu.