Vestnorrænu löndin eru að mörgu leyti frábrugðin öðrum Norðurlöndum. Þar búa til að mynda fleiri karlar en konur. Ástæðan er meðal annars sú að einkum ungar konum sem flytja burt frá jaðarsvæðum kjósa oft að flytja ekki heim aftur. Í ljósi þess ákvað Embættismannanefnd Norrænu ráðherranefndarinnar um jafnréttismál að styrkja rannsóknarverkefni um velferð og konur í Færeyjum, Grænlandi og á Íslandi og útkomu þessa rits. Markmið var að kortleggja velferðarúrræði í löndunum þremur og rannsaka hvaða áhrif þau hafa á líf ungra kvenna. Einkum voru skoðaðir velferðarþættir sem þóttu skipta ungar konur í Færeyjum, Grænlandi og á Íslandi máli, þættir sem gætu styrkt stöðu kvenna og aukið jafnrétti kynjanna. Opinberar tölur meðal annars um lýðfræði, velferðarkerfin og vinnumarkað voru greindar. Þá voru tekin rýnihópaviðtöl við fimm mismunandi kvennahópa í löndunum þremur, alls 75 konur. Í ritinu eru þrír kaflar um konur og velferð í hverju landi fyrir sig. Höfundar kaflanna hafa tekið þátt í opinberri umræðu og rannsakað velferð og jafnrétti í sínum heimalöndum. Markmið verkefnisins var að kortleggja stöðu velferðarmála á Vestur-Norðurlöndum út frá sjónarhóli ungra kvenna. Ekki síður er því ætlað að vera mikilsvert framlag til umræðu um framtíðarþróun velferðarmála í þessum löndum.