Framtíðarsýn í norrænu samstarfi um menntamál og rannsóknir er sú að Norðurlöndin eigi, hér eftir sem hingað til, að vera leiðandi á sviði þekkingar og velferðar. Samstarfið byggist á vilja til öflugs samfélags menntunar og rannsókna á Norðurlöndum.
Samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um menntamál og rannsóknir (MR-U) markar stefnu í samstarfi ráðherra á sviði menntamála, rannsókna og tungumála frá nóvember 2019 til nóvember 2023. Áætlunin á að skerpa á áherslum og markmiðum samstarfsins, sem ráðast af pólitískum viðfangsefnum landanna, þar með talið Álandseyja, Færeyja og Grænlands.
Norræna ráðherranefndin um menntamál og rannsóknir hefur með sér samstarf á þremur áherslusviðum: menntamálum, rannsóknum og tungumálum. Samstarfið beinist að því að þróa áfram núverandi samstarfsvettvang og aðgerðir, jafnframt því að greina nýjar aðgerðir.
Þann 14. september 2021 ákvað MR-U að framlengja gildistíma samstarfsáætlunarinnar til og með 2024.